Staðráðnir í að halda Ólympíuleikana í sumar

Maður gengur framhjá skilti á miðvikudaginn þar sem Ólympíuleikarnir eru …
Maður gengur framhjá skilti á miðvikudaginn þar sem Ólympíuleikarnir eru auglýstir. AFP

Japanir hafa vísað því á bug að embættismenn telji það óumflýjanlegt að aflýsa Ólympíuleikunum í Tókýó annað árið í röð.  Forsætisráðherrann Yoshihide Suga segist vera staðráðinn í að halda leikana.

Í frétt Times er haft eftir ónafngreindum heimildarmanni innan japönsku ríkisstjórnarinnar að „fólk er sammála um að það sé of erfitt“ að halda Ólympíuleikana. Talsmaður stjórnvalda, Manabu Sakai, sagði að fréttin væri ekki á rökum reist.

Talsmaðurinn bætti þó við: „Á einhverjum tímapunkti munum við taka ákvörðun um hvort við munum halda leikana,“ sagði hann. „Þangað til mun japanska ríkisstjórnin gera allt sem í hennar valdi stendur til að undirbúningur fyrir leikana verði sem bestur.“

Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, í þinghúsi landsins.
Yoshihide Suga, forsætisráðherra Japans, í þinghúsi landsins. AFP

Efasemdir hafa verið uppi að undanförnu um það hvort leikarnir verði haldnir. Tilfellum kórónuveirunnar hefur fjölgað í Japan og stuðningur almennings vegna leikanna minnkað. Í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar kemur fram að um 80% aðspurðra voru andvígir því að leikarnir yrðu haldnir í ár.  

„Ég er staðráðinn í því að halda örugga Tókýó-leika og sanna að mannkynið hafi náð yfirhöndinni í baráttunni við veiruna,“ sagði forsætisráðherrann Suga engu að síður.

Skipuleggjendur leikanna segjast ætla sér að halda leikana í sumar og að undirbúningur sé í fullum gangi.

Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, sagði að það væri engin ástæða til að ætla að leikarnir verði ekki haldnir 23. júlí eins og áætlað er. „Þess vegna er ekkert plan B,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert