Þróttarar fá liðsauka frá Svíþjóð

Tinna Rut Þórarinsdóttir hefur leikið í Svíþjóð í vetur.
Tinna Rut Þórarinsdóttir hefur leikið í Svíþjóð í vetur. Ljósmynd/Þróttur Neskaupstað

Kvennalið Þróttar í Neskaupstað í blaki hefur fengið góðan liðsauka fyrir lokasprett Íslandsmótsins en Tinna Rut Þórarinsdóttir er á heimleið frá Svíþjóð og mun leika með liðinu til vorsins.

Austurfrétt.is greinir frá heimkomu hennar. Tinna Rut lék í vetur með sænska úrvalsdeildarliðinu Lindesberg en liðinu gekk ekki vel og endaði í næstneðsta sæti deildarinnar. Hún lék tólf af tuttugu leikjum liðsins og skoraði 53 stig og gekk vel seinni hluta tímabilsins.

Norðfirðingar eru í harðri baráttu um að ná fjórða og síðasta sætinu í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna en liðið er í fimmta sæti sem stendur.

Þá varð Norðfirðingurinn Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir deildarmeistari í Svíþjóð um síðustu helgi en lið hennar, Hytte/Halmstad, varð efst í úrvalsdeildinni með 56 stig og tapaði aðeins einum leik. Hún er á leið í úrslitakeppnina um sænska meistaratitilinn með liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert