Ein mesta vanvirðing sem ég hef orðið vitni að

Ásdís Hjálmsdóttir lagði skóna á hilluna á síðasta ári.
Ásdís Hjálmsdóttir lagði skóna á hilluna á síðasta ári. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Frjálsíþróttakonunni fyrrverandi, Ásdísi Hjálmsdóttur Annerud, er ekki skemmt yfir nýjasta útspili borgarstjóra, Íslandsstofu og Rafíþróttasamtaka Íslands.

Ásdís birti afar áhugaverða færslu á Facebook-síðu sinni í dag en hún segir það miður að íslenskt frjálsíþróttafólk skuli missa aðstöðu sína í einn og hálfan mánuð vegna stórs rafíþróttamóts næsta vor.

League Of Legends Mid-Season Invitational-mótið verður haldið í Laugardalshöll í maí og er óvíst hvert framhaldið verður hjá íslensku frjálsíþróttafólki enda æfingaaðstaðan fyrir frjálsíþróttafólk hér á landi af skornum skammti.

Þetta er ein mesta vanvirðing við frjálsar íþróttir sem ég hef orðið vitni að og hef ég nú séð ýmislegt á mínum 20 ára ferli! Þið afsakið en nú bara get ég ekki haft hljótt,“ sagði Ásdís á samfélagsmiðlinum Facebook.

Eins vænt og mér þykir nú um íþróttina mína og eins mikið og ég finn til með þeim ca 900 íþróttamönnum á öllum aldri sem hafa enga æfingaaðstöðu í 6 vikur útaf þessu ævintýri þá verð ég að segja að ég er guðs lifandi fegin að vera flutt og hætt og þurfa ekki að taka þátt í þessu rugli lengur,“ bætti Ásdís við.

Ásdís er Íslandsmethafi í spjótkasti og kúluvarpi utanhúss og þá á hún einnig stúlknametið í spjótkasti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert