37. Reykjavíkurmaraþonið fer fram í ágúst

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram í 37. sinn 21. ágúst.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram í 37. sinn 21. ágúst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2021 verður haldið í 37. sinn þann 21. ágúst með breyttu sniði miðað við fyrirhugaðar afléttingar á samkomubanni.

Opnað hefur verið fyrir skráningu áheita fyrir hlaupið en það verður með breyttu sniði en undanfarin ár vegna ýmissa takmarkana og áhrifa vegna kórónuveirufaraldursins.

Fréttatilkynning ÍBR:

Áheitasíða Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka, hlaupastyrkur.is, hefur nú verið opnaður endurbættur og notendavænni. Hlauparar geta nú skráð sig í hlaupið og byrjað að safna fyrir góðgerðarfélögin. Nú er auðveldara að setja inn myndir, texta og setja sér markmið.

20% afsláttur verður út maí í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Ein af breytingunum þetta árið er að hlauparar verða ræstir í nokkrum hollum og því verður hægt að skrá sig í holl miðað við áætlaðan lokatíma.

Upphaf hlaupaleiðanna breytist lítillega þar sem rássvæðið færist í Sóleyjargötu, en marksvæðið verður áfram í Lækjargötu. Fjórar vegalengdir verða í boði 2021, í stað þessara fimm venjulegu.

Keppt verður í maraþoni, hálfmaraþoni, 10 km og 3 km, að þessu sinni geymum við barnahlaupið og sjáum hvernig aðstæður í samfélaginu verða síðar í sumar, þá gæti það verið sett aftur á dagskrá.

Krýndir verða Íslandsmeistarar í maraþoni og hálfmaraþoni í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka í ár. Vegna aðstæðna í ár þá er aðeins leyfilegt að skrá sig í eitt hlaup í ár, þar sem það þarf að passa að hlauparar séu ekki að blandast milli hópa.

Það er því miður ekki leyfilegt að hlaupa 10 km og svo skokka 3 km með börnunum síðar um daginn. Vonumst til að fólk skrái sig til leiks og að áheitasöfnunin komi sterk til baka í ár. Hægt er að skrá sig á rmi.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert