Átti ekki krónu og lifði á morgunkorni

„Ég ákvað að fara á fullt í þetta og flyt til Noregs,“ sagði Sturla Snær Snorrason, margfaldur Íslandsmeistari á skíðum og atvinnumaður í greininni, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sturla ákvað að gerast atvinnumaður á skíðum árið 2015 en hann er fremsti skíðamaður þjóðarinnar í dag.

Lífið í Noregi var mikið hark til að byrja með en Sturla stefnir á þátttökurétt í heimsbikarnum á skíðum á komandi keppnistímabili.

„Ég var ekki með neina styrktaraðila á þessum tíma og var því helvíti fátækur,“ sagði Sturla.

„Þegar að ég var búinn að lifa á kornflögum í viku og orðinn fölur af næringarskorti ákvað ég að hringja í pabba og innheimta sumarlaunin mín.

Hann lagði aðeins inn á mig svo ég gæti keypt mér mat en mér fannst alltaf leiðinlegt að biðja foreldra mína um peninga, verandi orðinn tuttugu og eitthvað ára gamall,“ sagði Sturla meðal annars.

Viðtalið við Sturlu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert