Íslenskur heims- og Evrópumeistari leggur spjótið á hilluna

Helgi Sveinsson hefur lagt spjótið á hilluna.
Helgi Sveinsson hefur lagt spjótið á hilluna.

Helgi Sveinsson, fyrrverandi heims- og Evrópumeistari í spjótkasti, hefur ákveðið að leggja spjótið á hilluna.

Frá þessu er greint í Hvata, tímariti Íþróttasambands fatlaðra.

Búist var við því að þrátt fyrir að Helgi sé orðinn 42 ára myndi hann freista þess að taka þátt á Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó, sem fara fram síðsumars.

„Ég fann að minn tími var kominn. Ég var aumur alls staðar í líkamanum og þegar maður er fastur í því ástandi þá er erfitt að finna hvatninguna til að koma sér af stað á ný. Spjótkastið er þannig íþrótt að það er enginn afsláttur í boði. Þú þarft að vera 100% til að geta staðist þessi átök.

Ég hefði getað haldið áfram en þá hefði ég þurft að einbeita mér algerlega að íþróttinni. Ég þarf að sinna mörgu og þá hef ég sett íþróttina meira til hliðar. Ef ég ætlaði mér að ná árangri þá myndi ég vilja hafa íþróttina númer eitt. Minn tími var kominn,“ sagði Helgi meðal annars í ítarlegu viðtali við Hvata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert