Sögulegur sigur Wallace

Bubba Wallace fagnar sigrinum í gær.
Bubba Wallace fagnar sigrinum í gær. AFP

Aksturskappinn Bubba Wallace varð í gær fyrsti hörundsdökki ökumaðurinn í 58 ár til þess að bera sigur úr býtum í Nascar-kappakstrinum á Talladega-kappakstursbrautinni í Alabama í Bandaríkjunum.

Wallace er eini þeldökki aksturskappinn sem keppir í Nascar um þessar mundir. Wendell Scott er síðasti hörundsdökki ökumaðurinn sem vann Nascar-kappakstur, það gerði hann árið 1963.

„Ég hugsa aldrei um þessa hluti. En þegar þú varpar þessu svona fram þá vekur þetta augljóslega miklar tilfinningar og mikla gleði hjá fjölskyldu minni, aðdáendum og vinum.

Þetta er ansi svalt. Ég er bara stoltur af því að vinna Nascar-bikar,“ sagði hinn 27 ára gamli Wallace þegar honum var bent á hversu sögulegur sigur hans væri.

Körfuknattleikssgoðsögnin Michael Jordan er eigandi bílsins sem Wallace ekur, ásamt Denny Hamlin fyrrverandi aksturskappa í Nascar.

„Þessi sigur er tileinkaður öllum krökkunum þarna úti sem vilja fá tækifæri til þess að afreka það sem þeir vilja afreka og vera best í því sem þau vilja gera. Þið þurfið alltaf að vera trú ykkar eigin sannfæringu og láta ekki utanaðkomandi bull ná til ykkar.

Verið sterk. Verið auðmjúk. Verið hungruð. Margoft langaði mig að gefast upp. Sjáið til þess að rétta fólkið umkringi ykkur og þá munuð þið njóta stunda sem þessara,“ sagði Wallace einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert