Efast um öryggi Peng í kjölfar ásökunar

Peng Shuai við keppni árið 2018.
Peng Shuai við keppni árið 2018. AFP

Steve Simon, framkvæmdastjóri Tennissambands kvenna (WTA), efast um að tölvupóstur sem ríkisfjölmiðlar Kína birtu í gær og á að hafa verið frá tenniskonunni Peng Shuai sé í raun frá henni. 

Ekkert hefur heyrst frá Peng síðan hún ásakaði Zhang Gaoli, háttsettan kínverskan embættismann, um að hafa brotið á henni kynferðislega. Peng setti ásökunina fram í byrjun nóvember.

Í yfirlýsingu sagði Simon að hann ætti erfitt með að trúa því að Peng hefði skrifað póstinn sjálf. 

Fyrst var fjallað um umræddan tölvupóst í kínverskum ríkisfjölmiðlum í gær. Þar segir að Peng sé ekki týnd og hún sé alveg örugg. „Ég hef bara verið að hvíla mig heima og það er allt í lagi með mig,“ segir í póstinum sem sagður er skrifaður í hennar nafni. 

Krafðist þess að ásökun Peng verði rannsökuð

Í tölvupóstinum sagði einnig að ásökunin sem hún setti fram hefði verið fölsuð. 

Simon sagði að tölvupósturinn hafi einungis vakið hjá honum áhyggjur um öryggi Peng. 

„WTA og restin af heiminum þarf að fá óháða sönnun sem er hægt að sannreyna um að hún sé örugg,“ sagði Simon í yfirlýsingu. 

Þá krafðist hann þess að ásökun Peng á hendur Zhang yrðu rannsakaðar án ritskoðunar.

„Við þurfum að hlusta á og virða raddir kvenna, ekki ritskoða þær eða reyna að ráða yfir þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert