Undanþága Djokovic vegna smits – mætti smitaður á viðburð með börnum

Novak Djokovic.
Novak Djokovic. AFP

Lögfræðingar serbneska tennisleikarans Novak Djokovic segja hann hafa fengið undanþágu frá kröfu um að vera bólusettur við kórónuveirunni til þess að geta keppt á Opna ástralska mótinu þar sem hann hafi smitast af veirunni skömmu fyrir jól.

Djokovic, sem hefur ekki viljað þiggja bólusetningu, var búinn að fá undanþágu frá Victoria-ríki í Ástralíu og Tennissambandi Ástralíu til þess að keppa á mótinu en var þrátt fyrir það ekki hleypt inn í landið þegar hann lenti þar í vikunni.

Lögfræðingar Djokovic segja að tennissambandið hafi veitt honum tímabundna vegabréfsáritun þar sem hann hafi fengið „læknisfræðilega undanþágu frá bólusetningu við kórónuveirunni.“

Á miðvikudag sagði í yfirlýsingu frá landamæraeftirliti Ástralíu að tennisleikarinn hafi ekki sýnt fram á viðunandi sönnunargögn á flugvellinum í Melbourne þar sem fyrra smit væri ekki gild ástæða fyrir því að koma inn í landið óbólusettur.

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, staðfesti að slíkar væru alríkisreglurnar þar í landi og því hafi það gilt einu að Victoria-ríki og Tennissamband Ástralíu hafi veitt honum undanþágu.

Hvergi var búið að tilkynna um það áður en Djokovic ferðaðist til Ástralíu að hann hafi smitast í síðasta mánuði.

Þá er athyglisvert að samkvæmt lögfræðingum hans greindist Djokovic smitaður þann 16. desember síðastliðinn en líkt og Ben Rothenberg, blaðamaður New York Times, bendir á á twitteraðgangi sínum mætti hann hins vegar grímulaus á viðburð með fjölda barna í Tennismiðstöð Novaks í Belgrad þann 17. desember.

Djokovic hefði samkvæmt því átt að vera í einangrun enda með virkt smit þegar hann sat fyrir á ljósmyndum með fjölda barna.

Þá rann frestur til þess að sækja um undanþágu hjá Tennissambandi Ástralíu út viku fyrr, þann 10. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert