Las yfir dómurunum og uppskar lófatak

Árni Björn Pálsson sýnir hér hryssuna Anastasíu frá Svarfholti á …
Árni Björn Pálsson sýnir hér hryssuna Anastasíu frá Svarfholti á kynbótavellinum. mbl.is/Hákon Pálsson

Af þeim 111 hrossum sem fóru fyrir kynbótadóm á Landsmóti hestamanna í gær, var einkunn lækkuð hjá 103 þeirra, að sögn Reynis Arnar Pálmasonar hrossaræktanda. 

Athygli vakti þegar Reynir stóð upp í brekkunni, á miðri sýningu, og óð inn í skúrinn til dómaranna. Þar lét hann í ljós óánægju sína þannig að áhorfendur í brekkunni fóru ekki varhluta af því.

Hlaut hann opinbera áminningu fyrir þessa háttsemi, en fyrst var greint frá á vef Eiðfaxa.

Gafst ekki ráðrúm til að svara

„Ég hljóp á mig og las þeim pistilinn,“ segir Reynir í samtali við mbl.is.

Spurður hvernig viðbrögð dómaranna hafi verið, við þessa óvæntu uppákomu, segir Reynir að þeim hafi ekki gefist ráðrúm til að svara. „Ég hugsa að þeir hafi verið hissa.“

Þegar Reynir gekk út úr skúrnum á ný uppskar hann lófatak meðal áhorfenda í brekkunni og hann kveðst aðeins hafa fengið jákvæð viðbrögð í kjölfarið. 

„Tína tölur“ af bestu hestum landsins

„Það er mikil stemning á keppnisvellinum en það er búin að vera mikil óánægja meðal knapa á þessari kynbótasýningu. Dómar á hrossum núna eru langt frá því að vera í samræmi við það sem búið er að vera fyrr í vor. Hross eru að lækka um þrjátíu til fjörutíu kommur. Einhver eiga það skilið en ekki nærri því öll.“

Hann bendir á að í sumar hafi 900 kynbótahross verið dæmd og aðeins þau sterkustu hafi fengið sýningarrétt á Landsmóti. 

„Þetta eru bestu hross og bestu knapar landsins og Landsmót er uppskeruhátíð hestamanna. Svo fáum við fullt af útlendingum hingað heim að leita sér að hestum. Það verður svo miklu minni stemning þegar verið er að tína tölur af þessum hestum.“

Hér er góður gestur búinn að koma sér fyrir fremst …
Hér er góður gestur búinn að koma sér fyrir fremst í brekkunni til þess að fylgjast með bestu kynbótahrossum landsins. mbl.is/Hákon Pálsson

Ekki síðri en þegar hún var síðast sýnd

Það sem gerði útslagið fyrir Reyni var þegar sambýliskona hans var að ljúka við sýningu á hryssu úr ræktun þeirra, sem var lækkuð úr einkunninni níu, í einkunnina átta, í fjórum liðum. 

„Það eru auðvitað miklar tilfinningar í þessu en hún var ekki síðri en þegar hún var síðast sýnd.“

Á almennum kynbótasýningum eru þrír dómarar en á Landsmóti er dómnefndin skipuð fjórum dómurum. Fenginn er inn einn sem búsettur er erlendis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert