Yfir þúsund manns heimsækja gosstöðvarnar daglega

Frá eldosinu í Meradölum fyrr í sumar.
Frá eldosinu í Meradölum fyrr í sumar. mbl.is/Hákon Pálsson

Gosórói mælist ekki á Reykjanesskaga og önnur virkni er lítil á svæðinu samkvæmt því sem fram kemur í stöðuskýrslu Samhæfingarstöðvar Almannavarna. 

Unnið er á hættustigi Almannavarna og verður staðan metin á ný í næstu viku. 

„Gestafjöldi hefur haldist stöðugur undanfarna viku og 1000-1500 gestir heimsækja gosstöðvarnar daglega. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur minnt á að óheimilt er að ganga á hrauninu og vísar þar bæði í almannavarnalög og lög um náttúruvernd. Eldhraun og eldvörp njóta sérstakrar verndar laga um náttúruvernd. Þrátt fyrir að hraun virðist hafa kólnað þá er enn hætta á miklum hita undir efsta lagi. Yfirborð hraunsins er ótraust og hvassar brúnir þess geta skorið fólk illa,“ segir í skýrslunni. 

Björgunarsveitir eru ekki lengur á svæðinu en bregðast við í neyð eins og þeirra er háttur. „Tvö teymi lögreglumanna og sjúkraflutningamanns eru á svæðinu og hafa getað sinnt því sem þarf. Áætlað er að landverðir frá Umhverfisstofnun hefji störf eftir helgina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert