Þykir ótrúlega vænt um að þær séu að hvetja okkur áfram

Íslenska liðið sýndi magnaða takta í dansinum (gólfæfingum)
Íslenska liðið sýndi magnaða takta í dansinum (gólfæfingum) Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

„Við erum ótrúlega sáttar,“ sagði Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir, landsliðskona í hópfimleikum, í samtali við mbl.is. Íslenska stúlknalandsliðið hafnaði í þriðja sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í Lúxemborg í kvöld og tryggði sér sæti í úrslitum með sannfærandi hætti í leiðinni.

„Okkur gekk rosalega vel. Við vissum ekki alveg hverju við áttum að búast við. Við gerðum allt sem við gátum og lögðum mikið á okkur og við uppskárum eftir því. Það var mjög stífur undirbúningur og við lögðum mikið á okkur á æfingum fyrir þetta mót.“ bætti Tinna, eins og hún er oftast kölluð, við.

Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir, lengst til vinstri, gat leyft sér að …
Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir, lengst til vinstri, gat leyft sér að brosa eftir glæsilegar æfingar í kvöld. Ljósmynd/Stefán Þór Fiðriksson

Íslenska liðinu gekk sérlega vel í gólfi, eða í dansi, og fékk 19 stig. Var það næsthæsti stigafjöldi fyrir eina grein á öllum keppnisdeginum. „Framkvæmdin á dansinum gekk mjög vel og stóru augnablikin heppnuðust rosalega vel,“ sagði hún. Íslenska liðið fékk hátt í hinum tveimur greinunum líka, en á þó eitt og annað inni.

„Á dýnunni voru tvær eða þrjár lendingar sem við þurfum aðeins að laga. Það er samt ekki mikið sem við þurfum að laga. Þetta leit heilt yfir mjög vel út hjá okkur,“ sagði Tinna.

Íslendingar eru fjölmennir í Lúxemborg og þeir létu vel í sér heyra þegar íslensku stelpurnar framkvæmdu sínar æfingar.

„Það hjálpaði mjög mikið og það var gaman að finna stuðninginn. Það gaf okkur ótrúlega mikla orku að heyra stuðninginn þegar við vorum í handstöðunni í dansinum. Við fundum að stuðningsmennirnir voru sáttir við það sem við vorum að gera.“

Íslenska liðið einbeitt fyrir æfingar á trampólíni.
Íslenska liðið einbeitt fyrir æfingar á trampólíni. Ljósmynd/Stefán Þór Fiðriksson

Fullorðinslið kvenna er ríkjandi Evrópumeistari og því ekki amalegar fyrirmyndir fyrir Tinnu og hennar liðsfélaga í unglingalandsliðinu. „Þær eru geggjaðar og það er ótrúlega gaman að fylgjast með þeim. Okkur finnst þær ótrúlega flottar. Okkur þykir ótrúlega vænt um að þær séu að hvetja okkur áfram,“ sagði hún.

Íslenska stúlknaliðið keppir í úrslitum á föstudag, en liðið hafnaði í öðru sæti í Portúgal á síðasta ári og Tinna vill að liðið berjist aftur um verðlaun.

„Við viljum halda okkur á palli. Það er raunhæft ef við gerum okkar og höldum okkur við okkar gildi,“ sagði Tinna að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert