Tækluðum þetta ótrúlega vel

Íslenska liðið með bronsverðlaun í dag. Salka er númer 11 …
Íslenska liðið með bronsverðlaun í dag. Salka er númer 11 og Tinna númer 1. Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

„Við erum sjúklega ánægðar og alveg í skýjunum,“ sögðu þær Salka Sverrisdóttir og Hrafnhildur Tinna Brynjólfsdóttir, nánast í kór, í samtali við mbl.is eftir að þær höfðu unnið til bronsverðlauna með stúlknalandsliði Íslands á EM í hópfimleikum í Lúxemborg í kvöld.

„Ég er ánægð með hvernig við tækluðum aðstæður,“ sagði Tinna, eins og hún er oftast kölluð, og Salka tók við: „Við lentum í smá mótlæti í æfingasalnum. Það komu upp meiðsli, sem við vorum ekki að búast við, en við tækluðum það ótrúlega vel. Við erum rosalega stoltar.“

Salka Sverrisdóttir var í eldlínunni í dag.
Salka Sverrisdóttir var í eldlínunni í dag. Ljósmynd/Stefán Þór Friðriksson

„Það kom smá stress því við þurftum að skipta út og nota varamann í staðinn en við tækluðum þetta ótrúlega vel og við erum stoltar af því,“ sagði Salka.

Íslenska liðið hafnaði einnig í þriðja sæti í undanúrslitum á miðvikudag, en heilt yfir gekk betur á áhöldunum í dag og íslenska liðið fékk fleiri stig.

„Mér fannst ganga betur á áhöldunum núna og þótt við værum smá lægri á dansinum, þá var þetta ótrúlega gott,“ sagði Tinna og Salka tók í sama streng. „Við gáfum allt í þetta og þetta gat varla verið betra.“

„Nú förum við aftur til okkar félaga að æfa. Ég stefni á senior (fullorðinsflokk) eftir tvö ár,“ sagði Tinna. Salka ætlar sér sömu leið. „Nú förum við í heimaæfingarnar og stefnum á senior,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert