„Tel að lögreglan hafi gengið of langt“

Lögregluyfirvöld í Indónesíu hafa sætt gagnrýni fyrir viðbrögð sín í …
Lögregluyfirvöld í Indónesíu hafa sætt gagnrýni fyrir viðbrögð sín í troðningnum mannskæða í gær. Myndin er tekin fyrir utan Kanjuruhan-leikvanginn. AFP/Juni Kriswanto

Þjálfari indónesíska knattspyrnuliðsins Arema segir stuðningsmenn hafa látist í örmum leikmanna og telur lögreglu hafa gengið langt yfir strikið með því að beita táragasi á fólk sem hljóp inn á Kanjuruhan-leikvanginn í Indónesíu, þar sem að minnsta kosti 125 létust í troðningi í gær.

Áhorfendur hlupu inn á völlinn eftir 2:3-tap Arema fyrir erkifjendum sínum í Persebaya Surabaya, sem leiddi að lokum til eins mannskæðasta íþróttaharmleiks sögunnar.

„Það hræðilegasta var þegar fórnarlömbin hlutu aðhlynningu liðslæknisins. Um 20 manns leituðu til hans og fjórir létust. Stuðningsmenn létust í örmum leikmanna,“ sagði Javier Roca, þjálfari Arema, í samtali við spænsku sjónvarpsstöðina Cadena Ser.

Lögregluyfirvöld í Indónesíu lýstu því yfir að auk þeirra 125 látnu hafi 323 manns slasast. Flestir sem létust urðu undir í troðningi eða köfnuðu.

Samkvæmt lögreglunni var um óeirðir að ræða. Um 3.000 hafi hlaupið inn á völlinn og hafi lögreglan beitt táragasi eftir að tveir lögreglumenn voru drepnir, í því skyni að reyna að fá fólkið til þess að snúa aftur í 42.000 manna stúkuna.

„Ég er andlega brotinn. Ég finn fyrir þungri byrði og jafnvel mikillar ábyrgðar. Eftir leikinn gekk ég til búningsklefa á meðan nokkrir leikmenn héldu kyrru fyrir á vellinum.

Að loknum blaðamannafundi gekk ég aftur á völlinn og sá harmleikinn með eigin augum. Strákarnir löbbuðu framhjá mér með fórnarlömb í örmum sínum.

Úrslit ráða ferðinni og skera úr um hvað gerist. Hefðum við gert jafntefli hefði þetta ekki gerst,“ bætti Roca við.

Hann gagnrýndi þá viðbrögð lögreglunnar og sagði öryggisgæslu á leikvanginum hafa verið sárlega ábótavant.

„Það sannaðist að leikvangurinn var ekki reiðubúinn, það var ekki gert ráð fyrir svona ringulreið. Ekkert þessu líkt hafði nokkru sinni átt sér stað á leikvanginum og það fór allt úrskeiðis vegna þess fjölda fólks sem vildi forða sér.

Ég tel að lögreglan hafi gengið of langt jafnvel þó að ég hafi ekki verið á vellinum og upplifði ekki það sem átti sér stað.

En þegar maður skoðar myndefnið finnst manni sem þeir hefðu getað notast við aðrar aðferðir. Engin úrslit í leik, sama hversu mikilvægur leikurinn er, eru þess virði að týna lífinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert