„Algjört maraþonholl“

Aron Friðrik Georgsson í beygjunni, sinni sterkustu grein.
Aron Friðrik Georgsson í beygjunni, sinni sterkustu grein. Ljósmynd/Evrópska kraftlyftingasambandið, EPF

Eins og mbl.is hefur fjallað um lauk vösk sveit íslenskra sexmenninga keppni á Evrópumeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum í Skierniewice í Póllandi á sunnudaginn með glæsilegri frammistöðu Kristínar Þórhallsdóttur sem þó var ekki ein landa sinna um að rífa í járnið þennan lokadag.

Á sunnudagsmorgun keppti Aron Friðrik Georgsson í -120 kg flokki og hafnaði þar í 17. sæti af 19 keppendum. Hófst keppni í flokknum fyrir allar aldir, vigtun klukkan sjö að morgni og keppni hafin klukkan níu svo ljúka mætti þessu stóra tíu daga langa móti tímanlega fyrir lokahóf um kvöldið.

Aron byrjaði vel í hnébeygjunni sem er hans sterkasta grein. Lyfti hann þar 280 kg í fyrstu lyftu og 300 í annarri, báðar lyftur framkvæmdar af öryggi. Í þriðju lyftu reyndi hann við 310 kg sem hefði verið bæting á hans eigin Íslandsmeti um fimm kg en stöngin fór ekki upp í það sinnið.

Tognaði í bekknum

Í bekkpressu lyfti Aron fyrst 180 kg og þá 192,5 sem flugu upp. Í þeirri lyftu varð hann hins vegar fyrir því óláni að togna í brjóstvöðva og neyddist hann því til að sleppa þriðju tilrauninni þar sem hann hafði hug á að reyna sig við 200 kg, sú þyngd hefði verið bæting á hans besta árangri í -120 kg flokknum.

Aron hóf réttstöðulyftuna með 275 kg sem fóru örugglega upp. Næsta þyngd var 287,5 sem fór upp með tveimur hvítum ljósum og einu rauðu, einn þriggja dómara vildi sem sagt ógilda en var atkvæðum borinn. Tók kviðdómur lyftuna þá til umfjöllunar og sneri niðurstöðunni Aroni í óhag, taldi lyftuna ógilda vegna tæknigalla. Þá reyndi Aron við 290 í þriðju tilraun en hafði ekki erindi sem erfiði.

„Ég var mjög ánægður með bekkinn og ljóst að það var nóg inni,“ segir Aron, „hefði ég sloppið við tognunina hefði ég vafalaust tekið þriðju lyftuna – held ég.“ Hann segir hlutina hafa farið sem fóru í réttstöðunni, líklega hefði hann verið öflugri með ögn meiri tíma milli lyfta.

„Þetta var algjört maraþonholl,“ segir hann og á við sex manna hollið sem hann keppti í innan þyngdarflokksins. „Þrjú hundruð kílóa beygjan var töluvert betri en í fyrra þannig að það er meira inni þar. Tilraunin við 310 kílóin var tæknilega gölluð af minni hálfu. Ég var hikandi og fannst ég ekki vera í réttri stöðu með stöngina á bakinu og fór því allt of varlega niður. Ég þarf bara meira sjálfsöryggi og þetta flýgur upp,“ segir Aron Friðrik Georgsson bjartsýnn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert