Thelma Norður-Evrópumeistari á tvíslá

Thelma Aðalsteinsdóttir er Norður Evrópumeistari á tvíslá.
Thelma Aðalsteinsdóttir er Norður Evrópumeistari á tvíslá. Ljósmynd/Auður Sigbergsdóttir

 „Ég veit ekki við hverju ég var að búast, ég hugsaði mest um að gera betri æfingu en ég gerði í gær og bæta handstöðuna, sem ég gerði,“ sagði fimleikakonan Thelma Aðalsteinsdóttir sem er nýkrýndur Norður-Evrópumeistari á tvíslá með 12,266 í einkunn.

Hún var þriðja inn í úrslit á Norður-Evrópumótinu í Svíþjóð og bætti einkunnina um 0,466 frá því í liðakeppninni í gær.

Var fyrsta sætið markmiðið fyrir mót? 

„Alls ekki, ég hugsaði það ekki fyrir mótið. Ég meiddi mig á föstudaginn á æfingu í ökklunum þegar ég var á stökki svo ég bjóst ekki við neinu.

Ég vissi ekki einu sinni hvort ég var að fara að keppa á laugardeginum en síðan náðum við að teipa ökklann eitthvað svo ég náði að keppa á öllum áhöldum en við þurftum að breyta slá og gólfi en ég gerði það sama á tvíslá sem skilaði mér inn í úrslit.

Ég var þriðja inn í úrslitin og það eina sem ég hugsaði fyrir mótið áðan var að gera betur en í gær og einbeita mér betur að litlum punktum,“ sagði Thelma í viðtali við mbl.is í dag.

 Nálægt verðlaunapalli í liðakeppninni

Íslenska kvennalandsliðið var mjög nálægt því að lenda á verðlaunapalli í gær en aðeins munaði 0,401 á Íslandi og Noregi sem var í þriðja sæti.

„Já við vorum ógeðslega nálægt því að lenda á palli í gær en við vorum að telja nokkuð mörg föll. Við vorum með tvö og hálft fall á slá, ég datt á slána og svo datt ég af henni og svo var annað fall á slá og fall á tvíslá. 

Það var alls ekki markmiðið að lenda á palli. Við vorum einhvern veginn ekki að búast við neinu. Ég meiddi mig eins og ég sagði og við vorum í upphitun að prófa hvort ég gæti keppt á gólfi og slá og ef að ég hefði ekki keppt þá hefðum við ekki verið með lið.  

Það þurfa að vera þrír fullorðins keppendur í liðinu og ef að ég hefði ekki gert þá hefðum við bara verið með tvo fullorðna svo að þetta var smá á mér hvort við hefðum verið með lið. En við náðum því og vorum ótrúlega nálægt þrátt fyrir allt þetta vesen sem við gengum í gegnum,“ sagði Thelma í samtali við mbl.is.

Hild­ur Maja Guðmunds­dótt­ir, Margrét Lea Krist­ins­dótt­ir og Lilja Katrín Gunn­ars­dótt­ir komust einnig í úrslit á áhöldum. Lilja lenti í fjórða sæti á stökki með 12.816 í einkunn aðeins 0,033 frá verðlaunapalli. Margrét lenti í 7. sæti á slá með 11,433 í einkunn og Hildur lenti í fjórða sæti á gólfi með 12,266 í einkunn, aðeins 0,034 frá verðlaunapalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert