Taktík sem hjálpaði mér að róa mig niður

„Ég fór á fyrsta stórmótið mitt í fullorðinsflokki árið 2007 minnir mig og það var alveg stressandi að vera unglingur á leið á stórmót,“ sagði sundkonan fyrrverandi og ólympíufarinn Hrafnhildur Lúthersdóttir í Dagmálum.

Hrafnhildur, sem er 32 ára gömul, lagði sundhettuna mjög óvænt á hilluna í ársbyrjun 2018, þá 27 ára gömul, en ein af ástæðum þess að hún ákvað að hætta var skortur á fjármagni og lítill stuðningur stjórnvalda við íslenskt afreksíþróttafólk.

Einbeitt á sundið

Hrafnhildur fór á tvenna Ólympíuleika á ferlinum, þar sem hún varð meðal annars fyrst íslenskra kvenna til þess að synda til úrslita, og þá vann hún til þrenna verðlauna á Evrópumeistaramótinu í Lundúnum árið 2016.

„Ég lærði það frekar snemma að einbeita mér algjörlega að sundinu og ég uppgötvaði ágætis taktík sem hjálpaði mér að róa mig niður á þessum stærstu mótum,“ sagði Hrafnhildur.

„Ég talaði mikið við næstu manneskju við hliðina á mér, náði að trufla hana á sama tíma og það hjálpaði mér að dreifa huganum,“ sagði Hrafnhildur meðal annars í léttum tón.

Viðtalið við Hrafnhildi í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert