Handtökuskipun á hendur Rice

Rashee Rice fyrir leik með Kansas City Chiefs.
Rashee Rice fyrir leik með Kansas City Chiefs. AFP/Jamie Squire

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur Rashee Rice, leikmanni NFL-meistara Kansas City Chiefs í ruðningi, vegna hlutdeildar hans í árekstri sem olli því að fjórir hlutu áverka.

Hinn 23 ára gamli Rice flúði af vettvangi í Dallas í Texasríki en hefur gefið það út að hann hyggist gefa sig fram við lögreglu og vinna með yfirvöldum.

Alls stendur Rice frammi fyrir átta ákæruliðum, þar á meðal alvarlegri líkamsárás og að hafa verið valdur að árekstri sem olli alvarlegum áverkum.

Áreksturinn átti sér stað þann 30. mars síðastliðinn þar sem Lamborghini-bifreið Rice skall saman við Corvette-bifreið, en báðar voru þær að aka of hratt og ollu árekstri sem vatt upp á sig með þeim hætti að fleiri bílar lentu í árekstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert