Thelma vann silfur og Ísland brons

Thelma Aðalsteinsdóttir vann til silfurverðlauna.
Thelma Aðalsteinsdóttir vann til silfurverðlauna. Ljósmynd/FSÍ

Thelma Aðalsteinsdóttir vann til silfurverðlauna í fjölþraut og íslenska kvennaliðið vann til bronsverðlaun á Norður Evrópumóti í fimleikum sem nú fer fram á Írlandi.  

Keppnin er einnig undankeppni fyrir úrslit á einstökum áhöldum sem fara fram á morgun. 

Thelma fékk 50.050 stig og var aðeins 100 stigum frá gullinu. Hildur Maja Guðmundsdóttir var með næst besta árangurinn af íslensku stelpunum með 47.700 stig í 9. sæti. 

Íslenska liðið hóf keppni á jafnvægisslá. Thelma átti frábæra æfingu þar og gerði sér lítið fyrir og fékk 13.000 í einkunn sem tryggði henni sæti í úrslitum. Hildur Maja var nálægt því að komast í úrslit en er fyrsti varamaður á morgun.  

Thelma komst einnig örugglega í úrslit á gólfinu og var Hildur Maja nálægt því að komast í úrslit en grátlegt fall kom í veg fyrir það.  

Þegar kom að stökki var Thelma sú eina sem komst í úrslit en hún var eini íslenski keppandinn sem gerði tvö stökk sem hún negldi.  

Að lokum var komið að tvíslá. Thelma varð Norður Evrópumeistari á tvíslá á síðasta ári og vill því verja titilinn sinn. Þrátt fyrir fall í afstökki átti Thelma frábæra æfingu og komst hún áfram í úrslit. Hildur Maja átti einnig stórkostlega æfingu á tvíslá og komst í úrslit. Lilja Katrín Gunnarsdóttir stóð sig einnig vel og er varamaður inn í úrslitin. 

Lið Íslands er skipað af Hildi Maju Guðmundsdóttur, Lilju Katrínu Gunnarsdóttur, Lovísu Önnu Jóhannsdóttur, Rakel Söru Pétursdóttur, Thelmu Aðalsteinsdóttur og Þórönnu Sveinsdóttur. Þjálfarar liðsins eru Andrea Kovats-Fellner og Þorgeir Ívarsson.  

Dagur, Jón og Ágúst í úrslit

Karlalið Íslands keppti í fyrri hluta keppninnar og hafnaði í áttunda sæti. Ágúst Ingi Davíðsson var hæstur í fjölþrautaeinkunn með 76.550 stig í 9. sætinu. Atli Snær Valgeirsson var næst hæstur með 73.850 stig í 20. sæti.   

Jón Sigurður Gunnarsson átti frábæra seríu á hringjum og komst öruggt inn í úrslit.   

Íslenska liðið átti frábæran dag á tvíslánni. Dagur Kári Ólafsson framkvæmdi stórkostlega æfingu og tryggði sér sæti í úrslit með framkvæmdareinkunn upp á 9,0. Ágúst Ingi átti einnig frábæra æfingu og komst í úrslit.  

Á svifrá var Ágúst Ingi með hæstu einkunnina og komst í úrslit á morgun.  

Lið Íslands er skipað af Atla Snæ Valgeirssyni, Ágústi Inga Davíðssyni, Degi Kára Ólafssyni, Jóni Sigurði Gunnarssyni, Lúkasi Ara Ragnarssyni og Valdimari Matthíassyni. Ólafur Garðar Gunnarsson og Viktor Kristmannsson eru þjálfarar íslenska liðsins. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert