Thelma sópaði að sér verðlaunum á NEM

Thelma Aðalsteinsdóttir með verðlaunin í dag.
Thelma Aðalsteinsdóttir með verðlaunin í dag. Ljósmynd/FSÍ

Thelma Aðalsteinsdóttir komst í úrslit á öllum áhöldum á Norður-Evrópumótinu í áhaldafimleikum og vann gullverðlaun á þeim öllum.

Thelma fékk silfur í fjölþraut í gær og byrjaði daginn í dag vel og fékk gullverðlaun á stökki með 12,750 í einkunn. Næst fór hún á tvíslá og sigraði áhaldið með 12,800 í einkunn en liðsfélagi hennar í íslenska landsliðinu, Hildur Maja Guðmunds­dótt­ir, lenti í 4. sæti.

Thelma sló met þegar hún vann þriðju gullverðlaunin á jafnvægisslá en þar fékk hún 13,100 í einkunn en var hvergi hætt. Hún vann fjórðu gullverðlaunin á gólfi en þar fékk hún 13,300 í einkunn og er nú búin að vinna verðlaun í öllum þeim keppnum sem hún hefur tekið þátt í á þessu móti.

Dagur Kári Ólafsson og Ágúst Ingi Davíðsson kepptu á tvíslá karla og grátleg mistök komu í veg fyrir verðlaunasæti hjá þeim að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert