Tveir Tékkar í nýja Hafnarfjarðarliðið

Ómar Freyr Söndruson er á meðal þeirra leikmanna sem eru …
Ómar Freyr Söndruson er á meðal þeirra leikmanna sem eru komnir til liðs við SFH. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Skautafélag Hafnarfjarðar, sem leikur á Íslandsmóti karla í íshokkí í fyrsta skipti í vetur, hefur fengið tvo tékkneska leikmenn í sínar raðir.

Þeir heita Alex Kotasek og Radek Haas og hafa fengið keppnisleyfi með SFH sem mætir Fjölni í sínum fyrsta leik á Íslandsmótinu föstudaginn 4. október. 

Kotasek er 21 árs gamall og kemur frá HK Opava í heimalandi sínu en Haas er 24 ára gamall markvörður sem lék síðast með HC Dvur Králové.

Báðir hafa leikmennirnir spilað með yngri landsliðum Tékklands.

Þá fengu sjö leikmenn frá Skautafélagi Reykjavíkur keppnisleyfi með SFH í vikunni en það eru þeir Ómar Freyr Söndruson, Ævar Arngrímsson, Gabríel Camilo Gunnlaugsson Sarabia, Heiðar Örn Kristveigarson, Benedikt Bjartur Olgeirsson, Ólafur Hrafn Björnsson og Styrmir Steinn Maack.

SFH hefur enga æfinga- eða keppnisaðstöðu í Hafnarfirði og mun því leika alla leiki sína í vetur á heimavöllum hinna þriggja liðanna, SR sem spilar í Skautahöllinni í Laugardal, Fjölnis sem leikur í Egilshöllinni, og SA sem leikur í Skautahöllinni á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert