Boðsundsveit Íslands var nálægt Íslandsmeti í 4x50 metra fjórsundi á HM í 25 metra laug í Búdapest í Ungverjalandi í morgun.
Guðmundur Leó Rafnsson, Snorri Dagur Einarsson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero skipuðu íslensku sveitina og syntu á 1:44,06 mínútu. Íslandsmetið í greininni er 1:43,84 mínúta.
Tíminn nægði til þess að enda í 19. sæti. Guðmundur Leó synti undir unglingametinu sínu í 50 metra baksundi í fyrsta spretti. Metið er hins vegar ekki gilt þar sem um blandaða boðsundsveit var að ræða.
Snorri Dagur synti 100 metra bringusund á tímanum 59,01 sekúndur. Íslandsmet hans er 58,57 sekúndur. Snorri endaði í 36. sæti. Hann á eftir að synda 50 metra bringusund en það fer fram á laugardaginn kemur.