Tíundi sigurinn hjá Bubba

Bubba Watson.
Bubba Watson. AFP

Bubba Watson vann Genesis Open mótið á sunnudag hér í Los Angeles eftir hörkubaráttu við hóp af kylfingum alla helgina.

Þetta var tíundi sigur hans á PGA móti og í þriðja sinn sem hann vinnur þessa keppni hér á Riviera golfvellinum sem er rúman kílómetra upp hlíðarnar frá Kyrrahafinu á Santa Monica strönd.

Írinn Graeme McDowell hafði forystuna í keppninni eftir tvo fyrstu leikdagana, en Bubba Watson tók síðan tveggja högga forystu eftir að hafa farið átján holurnar á laugardag á 65 höggum. Watson lék körfuboltaleik á föstudagskvöld í keppni tengdri NBA Stjörnuleiknum hér í Staples Center. Sá leikur er aðeins til skemmtunar þar sem þar leikur mest fólk úr skemmtanaheiminum. „Ég var bara að reyna að halda mér heilum í leiknum og gerði lítið til að eiga hættu á meiðslum,“ sagði hann við fréttafólk eftir umferðina á laugardag.

Mótið var mjög jafnt alla helgina og seint á síðasta leikdeginum leit út fyrir að allt að sex leikmenn gætu orðið jafnir í forystunni á níu undir pari. Í fyrsta sinn um helgina fann maður að áhorfendur væru loks að taka við sér eftir að hafa séð Tiger Woods rúlla út úr mótinu á föstudag. Aðrir stjörnukylfingar gáfu smám saman eftir og augljóst var að nýi uppáhaldsmaður áhorfenda var nú Bubba Watson.

Watson, Kevin Na og Patrick Cantlay virtust ætla að berjast til lokaholunnar um titilinn, en Watson setti boltann beint í holuna úr glompu á fjórtándu holu og náði þar með allt í einu tveggja högga forystu á ellefu undir pari.

Þetta dugði honum til sigurs

Holuröð 12–15 var erfið fyrir kylfingana alla helgina og par var gott skor í henni. Watson lék þær holur á einu undir pari á sunnudag, en það tókst keppninautum hans ekki. „Ég átti fjögur erfið pútt þetta sex til níu jarda frá elleftu til þrettándu holu og setti þau öll niður. Fuglinn úr glompunni gerði þetta mun léttara fyrir mig því að ég sá að keppinautar mínir áttu í erfiðleikum. Watson hafði ekki unnið PGA mót í tvö ár og hann átti við heilsuerfiðleika að etja síðasta ár. „Maður veit aldrei hvort maður á eftir að vinna annað PGA mót þegar svo langt hefur liðið síðan maður vann síðast. Ég er þó nú aftur heill heilsu og ánægður að hafa náð tíu sigrum sem hefur verið markmið allan ferilinn.“

Bubba Watson slær úr sandgryfjunni.
Bubba Watson slær úr sandgryfjunni. AFP

Watson er sérstakur leikmaður í bandaríska golfheiminum. Hann er ekki eins fágaður í framkomu og flestir kylfingarnir á PGA mótunum. Hann er mun líklegri til að sýna tilfinningar sínar á almannafæri. Hann gróf andlit sitt í öxl aðstoðarmanns sín og grét um leið og síðasta skotið fór í holuna í lokin. Watson er líkur Phil Mickelson í leikstíl. Hann hefur nóg vald á bolanum til að geta reynt skot sem flestir aðrir PGA kylfingar láta óreynd.

Þegar hann nær eins góðum teigskotum og í þessu móti er voðinn vís fyrir keppinauta hans.

Vegna þessa leikstíls er Watson mjög vinsæll hjá áhorfendum. Það var augljóst eftir að Tiger Woods féll úr leik um helgina. Áhorfendur þurftu ekki að leita lengra en til Bubba til að finna leikmann til að halda með.

Hann var vinsæll sigurvegari meðal áhorfenda þegar hann fékk verðlaunin afhent þegar skuggar lengdust í gilinu seinnipart eftirmiðdagsins þar sem völlurinn liggur.

Allir komnir til leiks

Þetta mót var það sterkasta það sem af er golfkeppnistímabilinu hér vestra hjá PGA atvinnumönnunum rétt eins og í fyrra. Eins og undirritaður benti á fyrir ári síðan á þessum síðum hefst golfkeppnistímabilið hjá PGA strax eftir áramótin í Hawaii. Það flyst síðan í febrúar hingað til Kaliforníu og í eyðimörkina í Arizona áður en mótin flytjast austur á við til Florida og loks á fyrsta stórmót ársins, Masters mótið í Georgíu, í apríl. Keppnin dreifist síðan um fylkin austanmegin það sem eftir lifir árs.

Forráðamenn mótsins hér hafa nú náð að laða að alla bestu kylfinga heimsins ár eftir ár, þannig að það er ávallt spennandi að sjá hvernig toppkylfingunum gengur gegn sterkasta leikhóp ársins hér í Los Angeles.

Sjá alla grein Gunnars í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert