Ólafía klifrar upp töfluna

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir slær teighögg á mótinu í Bonville.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir slær teighögg á mótinu í Bonville. Ljósmynd/Tristan Jones

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur bætt umtalsvert stöðu sína á Australian Ladies Classic-golfmótinu í Bonville í Ástralíu en hún er langt komin með þriðja hringinn á mótinu.

Ólafía komst naumlega í gegnum niðurskurðinn eftir annan hring síðustu nótt, með því að fá þrjá fugla á síðustu fimm holunum. Þá var hún samtals á sex höggum yfir pari og það dugði til að sleppa í gegn.

Nú hefur hún bætt um betur, hefur leikið 15 holur af þriðja hring á fjórum höggum undir pari, og er þar með á tveimur yfir pari samanlagt. Með þessu er hún komin alla leið upp í 30. sæti á mótinu eftir að hafa verið í kringum hundraðasta sætið fram eftir öðrum hring. Ólafía hefur fengið örn og fjóra fugla á hringnum.

Valdís Þóra Jónsdóttir er í fjórða sæti á mótinu eftir frábæra spilamennsku en hún hefur ekki enn þá lagt af stað á þriðja hringnum. Hún er í næstsíðasta ráshópnum sem leggur af stað núna upp úr klukkan hálfeitt að íslenskum tíma, klukkan 11.35 á laugardegi í Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert