Ólafía byrjaði illa í San Francisco

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fór ekki vel af stað á Mediheal-meistaramótinu í golfi sem hófst í kvöld í San Francisco á vesturströnd Bandaríkjanna en það er liður í LPGA-mótaröðinni.

Ólafía fékk skramba strax á annarri holu sem hún lék á sex höggum og fékk tvo skolla í röð eftir það. Eftir fjórar holur var hún því komin á fjögur högg yfir parinu.

Ólafía fékk síðan aftur skolla á sjöundu holu og var þá á fimm yfir pari en rétti sig síðan af með fuglum á áttundu og níundu holu.

Hún er þar með á þremur höggum yfir pari vallarins þegar hún er hálfnuð með fyrsta hringinn og er sem stendur í 101.-117. sæti ásamt sextán öðrum kylfingum en þátttakendur á mótinu eru 144.

Caroline Hedwall frá Svíþjóð, Lydia Ko frá Nýja-Sjálandi, In-Kyung Kim frá Suður-Kóreu og Jessica Korda frá Bandaríkjunum eru efstar en þær hafa allar lokið hringnum á 68 höggum, fjórum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert