Birgir á sama skori og Fleetwood

Birgir Leifur Hafþórsson og aðrir kylfingar á BMW-mótinu fengu að …
Birgir Leifur Hafþórsson og aðrir kylfingar á BMW-mótinu fengu að glíma við erfiðan karga í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Birgir Leifur Hafþórsson, úr GKG, komst ágætlega frá fyrsta hringnum á hinu sterka BMW International móti sem leikinn var við krefjandi aðstæður í Þýskalandi á Evrópumótaröðinni í golfi í dag. Birgir lék á 74 höggum og á ágæta möguleika á að ná niðurskurði keppenda á morgun. 

Nokkuð hressilega blés á kylfinga í dag auk þess sem karginn á vellinum í Pu­l­heim þykir þykkur og erfiður viðureignar. Skorið á fyrsta hringnum bar þetta með sér. 

Birgir þurfti að hafa fyrir hlutunum eftir að hafa fengið skolla á fyrstu tvær holurnar og þrjá skolla á fyrstu fjórum. Alls fékk hann sex skolla á hringnum, fjóra fugla og átta pör. Birgir er á tveimur yfir pari vallarins í 55. sæti. 

Birgir lék á sama skori og Englendingurinn Tommy Fleetwood og Ítalinn Edoardo Molinari. Fleetwood hafnaði síðasta sunnudag í 2. sæti á Opna bandaríska meistaramótinu og er í 10. sæti heimslistans. 

Sergio Garcia, sigurvegari á Masters í fyrra lék á einu höggi betur en Birgir eða á 73. Ernie gamli Els stóð sig vel og var á höggi undir pari sem og Argentínumaðurinn Andrés Romero. Heimamaðurinn Martin Kaymer var á 72 eða parinu. 

Frakkinn Sébastien Gros er efstur á 68 höggum en þá koma fjórir kylfingar sem léku á 69. Alls náðu 22 kylfingar að leika undir pari.

Af kylfingum sem leikið hafa í Ryder-bikarnum í gegnum tíðina má nefna að David Howell var á 70 höggum, Thomas Pieters á 73, Stephen Gallavher á 77, Robert Karlsson á 78, Jamie Donaldsson á 81 og José María Olazábal má muna sinn fífil fegurri en hann var á 82 höggum. 

Englendingurinn vinsæli Tommy Fleetwood var einnig á 74 höggum.
Englendingurinn vinsæli Tommy Fleetwood var einnig á 74 höggum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert