Tiger segir völlinn einn þann erfiðasta

Tiger Woods æfði á Carnoustie-vellinum í gær.
Tiger Woods æfði á Carnoustie-vellinum í gær. AFP

Tiger Woods mun spila á Opna mótinu, einu af risamótum hvers árs í golfheiminum, í fyrsta skipti síðan árið 2015 í ár. Mótið fer fram á Carnoustie-vellinum í Skotlandi og spilar Woods á vellinum í fyrsta skipti síðan árið 2007.

Mótið hefst á fimmtudaginn og stendur til sunnudags og er Haraldur Franklín Magnús á meðal kylfinga á mótinu. Hann er fyrsti Íslendingurinn sem keppir á risamóti í karlaflokki. Woods segir að völlurinn sé einn sá erfiðasti sem kylfingar fá að kynnast. 

„Ég hef saknað þess að spila á Opna mótinu því þetta er elsta mótið af þeim öllum," sagði Woods við fjölmiðlamenn í gær. Þetta er elsta mótið í allri íþróttinni og ég hef unnið það nokkrum sinnum, það er skemmtilegt."

„Það er sérstakt að koma á Carnoustie-völlinn. Ég mun spila á honum í fjórða skiptið og það er ótrúlegt hvað þessi völlur breytist ekki neitt. Hann er enn einn sá erfiðasti sem hægt er að spila á," sagði Woods. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert