D.J. með dræverinn á lofti

Dustin Johnson á æfingahring í gær.
Dustin Johnson á æfingahring í gær. AFP

Carnoustie-völlurinn á austurströnd Skotlands er harður og þurr eftir blíðviðri í sumar ólíkt íslenska sumrinu. Haraldur Franklín Magnús mun glíma við völlinn þegar Opna breska meistaramótið hefst á morgun. 

Efsti kylfingur heimslistans, Dustin Johnson, segist reikna með því að nota dræverinn töluvert í teighöggunum á Carnoustie. Alla jafna myndi það þykja nokkur áhætta. Annars vegar vegna þess að karginn er þykkur og erfiður ef menn hitta ekki braut af teig en auk þess tapa menn höggi ef þeir lenda í brautarglompum. 

Takist mönnum hins vegar að slá vel með dræver og komast fram hjá slíkum hindrunum þá gætu þurrar brautirnar skilað upphafshöggum langleiðina að flöt á par 4 holum. 

Ef vindurinn blæs frá Atlantshafinu gæti hins vegar ákvarðanatakan breyst hjá Johnson og mörgum fleirum því völlurinn verður þá mun erfiðari viðureignar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert