Bakslag hjá Birgi í Katalóníu

Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur Hafþórsson Ljósmynd/GSÍ

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG átti ekki góðan dag á golfvellinum á sinn mælikvarða í Tarragona í Katalóníu í dag þegar hann lék þriðja hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina. Féll hann nokkuð niður listann í dag. 

Birgir lék á 76 höggum og var á fjórum höggum yfir pari vallarins. Birgir fékk aðeins einn fugl í dag, fimm skolla og tólf pör. Hann hóf leik á 10. teig og var á höggi undir pari eftir þrjár holur. Virtist hann því líklegur til að vera á svipuðu róli og fyrstu tvo dagana en þá komu þrír skollar á næstu fjórum holum. 

Birgir lék þennan sama völl á 67 höggum á laugardaginn. Leikið er á tveimur völlum og hinn völlinn lék Birgir á 69 höggum í gær. Hafði hann því byrjað virkilega vel en óvíst er að hann geti leyft sér að spila á 76 og komast áfram í jafn harðri samkeppni og ríkir í lokaúrtökumótinu. Áberandi er hversu fáir fuglarnir voru hjá Birgi í dag í samanburði við fyrstu tvo dagana. Fékk hann sex fugla á fyrsti degi og fjóra á öðrum degi. 

25 efstu kylfingarnir að loknum sex hringjum komast á Evrópumótaröðina. Birgir var á því róli eftir fyrstu tvo hringina en er nú í 85. sæti. 

Væntanlega þarf hann að leika aftur undir 70 höggum næstu daga til að eiga möguleika á því að komast alla leið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert