Biðinni lauk þegar kylfuberinn fékk frí

Lee Westwood.
Lee Westwood. AFP

Englendingurinn Lee Westwood vann í gær sinn fyrsta sigur á móti í stærstu mótaröðunum í fjögur ár þegar hann sigraði á Nedbank Challenge-mótinu í Suður-Afríku. Westwood er 45 ára og var þetta hans tuttugasti og fjórði sigur á Evrópumótaröðinni en hann var orðinn efins um að hann næði aftur að afreka slíkt. 

Westwood lék glimrandi vel og lauk leik á samtals 18 höggum undir pari. Spánverjinn Sergio Garcia kom næstur á 15 undir pari. 

„Ég er nánast í tilfinningalegu uppnámi ef ég á að segja alveg eins og er. Maður getur aldrei verið viss um á þessum aldri að manni takist að sigra aftur,“ sagði Westwood í samtali við Sky Sports. 

Westwood var um tíma á sínum ferli í efsta sæti heimslistans en hefur þó ekki tekist að sigra á risamóti. Hann fagnaði sigrinum á 18. flötinni ásamt kærustunni sem var kylfuberi hjá honum í mótinu. Vanalega er reyndur og vinsæll kylfuberi á pokanum hjá Westwood, Billy Foster að nafni, sem á sínum ferli hefur unnið bæði með Seve Ballesteros og Tiger Woods. Foster fékk frí þessa vikuna og varð væntanlega af umtalsverðum tekjum fyrst Westwood sigraði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert