Tiger spilaði meira golf en hann réð við

Tiger Woods mætti Phil Mickelson í sérstöku einvígi í Las …
Tiger Woods mætti Phil Mickelson í sérstöku einvígi í Las Vegas um helgina en tapaði þar í bráðabana. AFP

Tiger Woods, sem árum saman var fremsti kylfingur heims, viðurkennir að hafa ekki haft úthald í að spila eins mikið golf og hann gerði á þessu ári.

Eftir að hafa háð langa baráttu við bakmeiðsli og fengið marga til að efast um að hann kæmist aftur í fremstu röð má segja að Woods hafi snúið aftur í ár. Það gerði hann með frábærum sigri á lokamóti Fedex-bikarsins í haust.

Þetta var 80. sigur Woods á PGA-mótaröðinni. Viku síðar virtist bensínið hins vegar búið þegar hann mætti á Ryder-bikarinn í Frakklandi og tapaði fjórum leikjum.

„Ég var ekki búinn undir það, líkamlega, að spila svona mikið golf á lokahluta ársins. Það hefur aldrei verið svona heitt á hverju einasta móti, það var kæfandi hiti. Það var erfitt fyrir mig að viðhalda styrk og þyngd í gegnum þetta allt. Ég var alveg búinn á því þegar ég kom á Ryder-bikarinn. Ég hafði keyrt mig út, andlega og líkamlega,“ sagði Woods við fréttamenn í aðdraganda Hero World Challenge, mótsins sem Woods heldur á Bahamaeyjum og hefst á morgun.

„Ég tók mér gott hlé eftir Ryder-bikarinn og hvíldi mig frá þessu öllu. Æfingar hafa síðan gengið vel og ég er orðinn aðeins sterkari. Búkurinn og lappirnar eru svo sannarlega sterkari og nú þarf ég að æfa minn leik og koma skipulagi á hann fyrir næsta keppnistímabil. Ég hef lítið verið í því og frekar einbeitt mér að því að gera líkamann tilbúinn til að höndla aftur langar æfingatarnir og til að fara aftur út í þetta,“ segir Woods. Hann mun leika á Genesis Open í febrúar og risamótunum fjórum árið 2019 en hefur annars ekkert gefið út um dagskrána hjá sér á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert