GSÍ leggst gegn breytingu á klukkunni yfir sumarið

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ.
Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Golfsamband Íslands telur að breyting á klukkunni á sumrin, eins og til skoðunar er í forsætisráðuneytinu, muni hafa slæm áhrif á íþróttina hérlendis. Kylfingar hafi skemmri tíma til að spila með tilheyrandi tekjutapi fyrir Golfklúbba landsins sem eru 65 talsins. 

GSÍ leggst að hluta til gegn þeim breytingum sem lagðar eru til í fyrirliggjandi tillögum en sambandið tekur fram að breyting á klukkunni yfir vetrarmánuðina snerti ekki hagsmuni kylfinga og golfklúbba að ráði. GSÍ hefur sent inn umsögn vegna málsins í gegnum Samráðsgáttina. 

Annað gildi um breytingar á klukkunni á sumrin. „Komi til þess að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund mun það hafa gríðarleg áhrif á nýtingu íþróttamannvirkja yfir sumarmánuðina og skerða möguleika fólks til að leika golf eða stunda aðrar íþróttir úti við, sem og aðra útiveru. Þegar líða tekur á sumarið mun dagurinn styttast um eina klukkustund í kjölfar þess að sólin sest fyrr. Óhjákvæmilega mun þetta fela í sér mikið tekjutap fyrir golfklúbba vegna samdráttar í sölu vallargjalda. Í raun mætti tala um verulega skertan rekstrargrundvöll þeirra.

Hér má sjá umsögn GSÍ heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert