Risinn úr öskustónni

Tiger Woods
Tiger Woods AFP

Með sigri Tiger Woods á Masters-mótinu um helgina vaknar spurning sem ekki hefur verið velt upp síðustu ár. Þessi 43 ára gamli Bandaríkjamaður og skærasta stjarna golfheimsins frá því á síðustu öld hefur risið úr öskustónni en getur hann orðið sigursælasti kylfingur allra tíma?

Í maí 2017 var Woods búinn að gangast undir aðgerð á baki í fjórða sinn, vegna afar þrálátra og erfiðra bakmeiðsla. Í lok þess mánaðar var hann svo handtekinn í Flórída eftir akstur undir áhrifum lyfja, en í blóði hans fundust efni úr verkjalyfjum, kvíðastillandi lyfjum og svefnlyfjum auk kannabisefna. Hryggðarmyndin sem birtist fólki á fangamyndinni og myndskeiði af vettvangi, þar sem Woods gat ómögulega gengið eftir beinni línu, gaf til kynna að ferli hans sem kylfingur í fremstu röð væri algjörlega lokið. Golfspekingar kepptust um að fullyrða að svo væri, enda hafði Woods ekki unnið risamót frá árinu 2008 og verið langt frá því síðustu ár.

Bakaðgerðin fyrir tveimur árum reyndist hins vegar algjör vendipunktur fyrir Woods. „Allt í einu gat ég sveiflað golfkylfu aftur,“ sagði Woods á sunnudaginn, en bakmeiðsli hans voru svo slæm að hann átti í erfiðleikum með að leika við börnin sín eða sitja nógu lengi á veitingastað til að geta borðað þar máltíð. Markmiðið með fjórðu aðgerðinni, sem á ensku nefnist ALIF, var í raun aðallega það að Woods gæti lifað eðlilegu lífi. Fyrri aðgerðir voru ekki eins alvarlegar og gerðar með það í huga að hann gæti haldið áfram í sinni íþrótt, en þær bara virkuðu ekki. Læknar sem Washington Post ræddi við eru nánast orðlausir yfir því hve góðum bata Woods hefur náð og því að hann ráði við að spila fjögurra daga risamót, með öllu álaginu sem því fylgir, og standa uppi sem sigurvegari.

Greinina í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert