Hitar upp í Virginíu fyrir risamótið

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Ljósmynd/LPGA

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir fær sitt fyrsta tækifæri á LPGA-mótaröðinni í golfi, þeirri sterkustu heimi, á þessu keppnistímabili þegar hún hefur leik í Williamsburg í Virginíu á fimmtudaginn. Þar keppir hún á Pure Silk-meistaramótinu sem stendur yfir til sunnudags.

Ólafía var sem kunnugt er með fullan keppnisrétt á LPGA 2017 og 2018 en missti hann eftir síðasta tímabil og fær nú takmarkaðan aðgang að mótaröðinni. Hún verður þó á tveimur mótum í röð því Ólafía keppir einnig á risamótinu US Open sem hefst í Suður-Karólínu fimmtudaginn 30. maí.

Tvö undanfarin ár hefur Ólafía keppt á þessu móti í Williamsburg en það bar þá reyndar nafn Kingsmill. Í hvorugt skiptið komst hún í gegnum niðurskurðinn. Hún var fjórum höggum frá því árið 2017 en í fyrra stóð það afar tæpt. Ólafía virtist örugg áfram þegar tvær holur voru eftir en þá fór allt úrskeiðis og hún sat eftir, einu höggi frá því að fara áfram.

Ólafía er í 444. sæti heimslistans í kvennaflokki sem kom út í gær og sígur niður um tíu sæti. Hún komst best í 170. sætið í janúar 2018. Valdís Þóra Jónsdóttir er rétt á eftir, seig um fimm sæti og er í 450. sæti listans. Guðrún Brá Björgvinsdóttir er þriðji Íslendingurinn á listanum og er í 1.038. sæti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert