McIlroy grátlega nálægt eftir magnaðan hring

Rory McIlroy veifar til áhorfenda eftir að hafa fallið úr …
Rory McIlroy veifar til áhorfenda eftir að hafa fallið úr leik í dag. AFP

Bandaríkjamaðurinn JB Holmes og Írinn Shane Lowry eru efstir og jafnir á átta höggum undir pari eftir tvo hringi á The Open-meistaramótinu í golfi. Heimamaðurinn Rory McIlroy var grátlega nálægt því að komast áfram í dag þrátt fyrir skelfilegan hring í gær.

McIlroy bætti sig um hvorki meira né minna en 14 högg á milli hringja. Hann spilaði fyrsta hringinn í gær á 79 höggum, átta yfir pari, en spilaði annan hringinn í dag á 65 höggum eða sex undir pari. Hann var því samanlagt á tveimur yfir pari og var aðeins einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn. Þeir sem spiluðu á einu höggi yfir pari og betur komust áfram.

Forystumennirnir Holmes og Lowry eru með eins höggs forskot á Englendingana Tommy Fleetwood og Lee Westwood sem koma næstir á sjö höggum undir pari eftir að hafa báðir spilað á fjórum höggum undir pari í dag.

Þriðji hringur fer fram á morgun þar sem 73 kylfingar halda áfram leik af þeim 156 sem hófu keppni í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert