Ólafía verður með á Íslandsmótinu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdottir úr GR hefur ákveðið að taka þátt í Íslandsmótinu í golfi í ár en mótið fer fram á Grafarholtsvelli, heimavelli hennar, dagana 8. til 11. ágúst.

Þetta kemur fram á golf.is þar sem vitnað er í tilkynningu frá Ólafíu og KPMG á Íslandi.

„Það er mjög óvænt að ég taki þátt í Íslandsmótinu. Ég var að spila Grafarholtið um daginn og fannst það svo rosalega gaman. Mig kitlaði í fingurna að vera með í mótinu, þannig að ég hugsaði þetta í nokkra daga og í framhaldinu ákvað ég að breyta plönunum mínum aðeins og láta vaða. Það verður gaman að spila aftur á Íslandi, sérstaklega í Grafarholtinu þar sem ég ólst upp," segir í tilkynningunni. 

Ólafía er á meðal keppenda á styrktarmótinu árlega, Einvíginu á Nesinu, sem fer fram á Seltjarnarnesi á mánudaginn. Eftir Íslandsmótið fer hún til Bandaríkjanna á ný og keppir á mánudag á úrtökumóti fyrir LPGA-mót sem fram fer helgina á eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert