Evrópa með nauma forystu eftir fyrsta dag

Suzann Pettersen frá Noregi á mótinu í dag.
Suzann Pettersen frá Noregi á mótinu í dag. AFP

Evrópska liðið er með nauma forystu gegn því bandaríska í keppninni um Solheim-bikarinn í golfi. Evrópa hefur fjögur og hálft stig en Bandaríkin þrjú og hálft. Keppt er á Gleneagles vellinum í Skotlandi en á mótinu mætast margir af helstu kvenkylfingum álfanna. Bandaríkjamenn unnu keppnina síðast, árið 2017 á Des Mo­ines-vell­in­um í Iowa í heimalandinu.

Fyrirkomulag mótsins í dag var með þeim hætti að fyrir hádegi var leikinn fjórmenningur þar sem tveir eru saman í liði en spila með einn bolta og slá alltaf til skiptis. Eftir hádegi var svo keppt í fjórbolta þar sem tveir eru saman í liði hvor með sinn bolta og betra skorið telur á hverri holu.

Forysta evrópska liðsins hefði geta verið stærri en Englendingunum Charley Hull og Bronte Law mistókst báðum að pútta á 18. holu og enduðu því keppnir þeirra beggja með svekkjandi jafnteflum. Þær bandarísku áttu svo sínar stundir, Ally McDonald og Angel Yin unnu 7/5 stórsigur á þeim Anna Nordqvist og Caroline Hedwall frá Svíþjóð og jöfnuðu þar með stærsta sigurinn í fjórbolta í sögu keppninnar.

Nokkuð stormasamt var á vellinum og gekk kylfingum oft illa að athafna sig. Lizette Salas frá Bandaríkjnuum fékk tvær viðvaranir fyrir að taka sér of langan tíma milli höggva en dagskráin gerði ráð fyrir því að hver keppni í fjórbolta tæki ekki meira en fjórar klukkustundir og 35 mínútur. Hins vegar voru liðnar meira en fimm klukkustundir þegar Suzann Pettersen og Anne van Dam unnu evrópskan sigur gegn Salas og félaga hennar Danielle Kang.

Systurnar Jessica og Nelly Korda skrifuðu sig í sögubækurnar er þær urðu fyrstu systurnar frá Bandaríkjunum til að spila saman í Solheim-bikarnum og þær unnu 6/4 stórsigur gegn Caroline Masson og Jodi Ewart Shadoff.

Annar dagur keppninnar fer fram á morgun og þá með sama fyrirkomulagi áður en keppni lýkur á sunnudaginn. Þá verður keppt í tvímenningi, þ.e. holukeppni maður á móti manni.

Systurnar Jessica og Nelly Korda skráðu sig í sögubækurnar í …
Systurnar Jessica og Nelly Korda skráðu sig í sögubækurnar í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert