Bandaríkin jöfnuðu metin

Kylfingar bandaríska liðsins ræða sín á milli í dag.
Kylfingar bandaríska liðsins ræða sín á milli í dag. AFP

Evrópa og Bandaríkin eru jöfn að stigum, 8:8, eftir annan og næstsíðasta daginn í keppninni um Solheim-bikarinn í golfi. Evrópska liðið var með eins stigs forystu eftir fyrsta daginn í gær en það voru bandarísku kylfingarnir sem stóðust prófin á ögurstundum í dag. Lokadagurinn fer fram á morgun en 12 stig eru í pottinum til viðbótar.

Mikið hvassviðri var á Gleneagles-vellinum í Skotlandi í dag og var því spilað við nokkuð erfiðar aðstæður. Þrjár keppnir í fjórbolta réðust ekki fyrr en á 18. og síðustu holu og þær bandarísku unnu tvær þeirra.

Fyrir hádegi var keppt í fjórmenningi, rétt eins og í gær, og unnu liðin þar tvær keppnir hvor um sig. Charley Hull og Azahara Munoz unnu aftur saman fyrir evrópska liðið en Korda systurnar, Jessia og Nelly, unnu sömuleiðis sín einvígi. Eftir hádegi var keppt í fjórbolta og um hríð voru Bandaríkin með forystu í öllum fjórum einvígunum.

Lokadagurinn fer fram á morgun og eru þar eru 12 stig í pottinum. Keppt verður í tvímenningi, þ.e. holukeppni maður á móti manni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert