Enn einn bikarinn til Asíu?

Kim Sei-young.
Kim Sei-young. AFP

Kim Sei-young frá Suður-Kóreu er efst að loknum fyrsta keppnisdegi á lokamóti LPGA-mótaraðarinnar bandarísku í golfi. 

Lék hún á sjö höggum undir pari og er með tveggja högga forskot. Georgia Hall frá Englandi, Ryu So-yeon frá S-Kóreu og hin bandaríska Nelly Korda koma næstar. Korda er í þriðja sæti heimslistans. 

Kylfingarnir frá Suður-Kóreu hafa verið afar áberandi á LPGA og Evrópumótaröð kvenna í rúman áratug eða svo. Reyndar hafa kylfingar frá fleiri löndum Asíu látið mjög að sér kveða á mótaröðunum eins og þær tælensku. 

Mótið fer fram á Flórída og er til mikils að vinna enda kemur í ljós á sunnudag hver verður í efsta sæti stigalistans. Einungis komast þeir kylfingar inn í mótið sem bestum árangri hafa náð á árinu en Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði því árið 2017 og var þá á meðal keppenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert