Góð byrjun Tiger Woods dugði skammt

Áhorfendur í Melbourne fylgjast spenntir með Tiger Woods undirbúa högg …
Áhorfendur í Melbourne fylgjast spenntir með Tiger Woods undirbúa högg á mótinu. AFP

Þrátt fyrir góða byrjun hjá fyrirliðanum Tiger Woods stendur lið Bandaríkjanna höllum fæti gegn alþjóðlega liðinu, 1:4, eftir fyrsta keppnisdaginn í Forsetabikarnum í golfi í Melbourne í Ástralíu í nótt.

Tiger Woods og Justin Thomas unnu mjög öruggan sigur á Marc Leishman og Joaquin Niemann í fyrsta leik, 4/3, en eftir það tók alþjóðlega liðið völdin og er með 4:1 forystu eftir fyrsta daginn. Alþjóðlega liðið er skipað leikmönnum frá Asíu, Afríku og Eyjaálfu.

Sungjae Im og Adam Hadwin unnu Patrick Cantlay og Xander Schauffele 1/0.

Byeong Hun An og Adam Scott unnu Tony Finau og Bryson DeChambeau 2/1.

CT Pan og Hideki Matsuyama unnu Patrick Reed og Webb Simpson 1/0.

Louis Oosthuizen og Abraham Ancer unnu Gary Woodland og Dustin Johnson 4/3.

Tiger er fyrsti fyrirliðinn á þessu móti í 25 ár sem jafnframt spilar með liði sínu. „Þetta verða langir fjórir dagar og við verðum að vinna fyrir því að ná í þennan bikar. En þó við höfum tapað þessari lotu getum við enn þá unnið. Það er mikið eftir og fullt af stigum í pottinum. Við munum ná vopnum okkar og verðum klárir í slaginn á morgun,“ sagði Tiger við fréttamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert