Fórnarlamb eigin velgengni

Rory McIlroy
Rory McIlroy AFP

Norðurírski kylfingurinn Rory McIlroy segist vera fórnarlamb eigin velgengni þegar hann gerir upp árið og hvernig honum sé innanbrjósts eftir keppnistímabilið 2019.

McIlroy segir örla á vonbrigðum þegar hann gerir upp árið á golfvellinum. Segir hann í því samhengi að hann sé ef til vill fórnarlamb eigin velgengni og líklega myndi hann ekki finna fyrir neinum vonbrigðum ef hann væri einhver annar kylfingur. 

Rory McIlroy vann fjögur mót á PGA-mótaröðinni og Evrópumótaröðinni. Hann vann ekki eitt risamótanna en vann tvö stærstu mótin á mótaröðinni ef risamótin eru ekki talin með; Players Championship á Flórída og lokamótið Tour Championship í Atlanta. Varð hann jafnframt efstur á stigalistanum þar sem verðlaunafé er ævintýralegt og væntanlega fáir íþróttamenn í heiminum sem þénuðu meira á árinu. 

Með efsta sæti heimslistans í sigtinu

Hver er þá skýringin á því að McIlroy fer ekki alsæll inn í nýtt ár? Vafalaust situr í honum að hafa misst af niðurskurði keppenda á Opna breska meistaramótinu í júlí. Mótið var í fyrsta skipti haldið á N-Írlandi og samlandar hans væntu þess að sjá sinn mann berjast um sigurinn á heimavelli á einu elsta íþróttamóti heims. Hræðileg byrjun McIlroys á fyrsta keppnisdegi gerði þær vonir að engu því frábær spilamennska á öðrum keppnisdegi dugði ekki til. 

McIlroy hefur ekki náð að landa sigri á risamóti frá árinu 2014 þegar hann vann PGA-meistaramótið í annað sinn. McIlroy hafði unnið þrjú þeirra þegar hann var 25 ára og stendur nú á þrítugu. Masters er eina risamótið sem hann hefur ekki unnið en tvívegis hefur hann átt góða möguleika á Augusta. 

„Það sem mér tókst að afreka snemma á ferlinum, að vinna fjórum sinnum risamót um 25 ára aldurinn, er ekki beinlínis hversdagslegt.“

McIlroy er hins vegar afar ánægður með spilamennskuna á árinu. „Ég hef spilað mitt besta golf og er auk þess orðinn stöðugri. Fjórir sigrar á einu ári er frábært. Mér finnst sem allir þættir leiksins séu betri en áður hjá mér. Takist mér að bæta frekar öll þessi litlu atriði ætti ekkert að koma í veg fyrir áframhaldandi velgengni,“ sagði McIlroy við BBC og fór ekki leynt með að eitt af markmiðum ársins 2020 yrði að ná efsta sæti heimslistans en þar situr nú Brooks Koepka.

Rory McIlroy fagnar sigri á WGC-HSBC Champions mótinu í Shanghai …
Rory McIlroy fagnar sigri á WGC-HSBC Champions mótinu í Shanghai í nóvember. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert