Síðasta holan erfið en Guðrún í ágætri stöðu

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. mbl.is/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék fyrsta hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi á La Manga á Spáni í dag á 73 höggum,  tveimur yfir pari vallarins.

Guðrún var komin í mjög vænlega stöðu eftir 17 holur, hafði þá fengið tvo fugla í röð og var samtals á pari, en hún fékk tvöfaldan skolla á 18. holunni, sem var par 4. Guðrún lék hana á sex höggum.

Þar með er hún í 39. sæti ásamt tuttugu öðrum kylfingum þegar nær allir keppendur hafa lokið fyrsta hring í dag. Með því að leika átjándu holuna á pari hefði Guðrún verið í 15.-20. sæti mótsins.

Morgane Metraux frá Sviss lék best í dag og er á þremur höggum undir pari. Leikið er á tveimur völlum, norðurvellinum sem er par 71 og suðurvellinum sem er par 73 en Guðrún spilaði á norðurvellinum í dag.

Leiknir eru fimm hringir á La Manga og fimmtán efstu keppendurnir af þeim 120 sem hófu keppni í dag komast inn á Evrópumótaröðina 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert