Guðrún áfram í toppbaráttunni á Spáni

Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék þriðja hringinn á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi í dag á 74 höggum, þremur yfir pari, en er áfram í baráttunni um að komast inn í sjálfa Evrópumótaröðina í ár.

Guðrún Brá er í 14.-19. sæti af 120 keppendum eftir þrjá daga af fimm en fimmtán efstu kylfingarnir komast í Evrópumótaröðina 2020.

Hún er samtals á einu höggi yfir pari eftir dagana þrjá og er aðeins fjórum höggum á eftir Alice Hewson frá Englandi sem er með forystuna og hefur leikið samtals á þremur höggum undir pari. Þar munar um eina slæma holu hjá Guðrúnu í dag þar sem hún fékk tvöfaldan skolla. Hún fékk auk þess einn skolla á hringnum en lék allar hinar sextán holurnar á pari.

Mótið heldur áfram á La Manga á Spáni á morgun og lýkur á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert