Ólafía kunni vel við sig gegn strákunum

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði góðum árangri á Spáni.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði góðum árangri á Spáni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Alls tóku tólf Íslendingar þátt á Hacienda del Almo Open-mótinu í golfi á Spáni í vikunni. Mótið er hluti af Evolve-mótaröðinni, þar sem áhuga- og atvinnumenn af báðum kynjum leika sín á milli.  

Andri Þór Björnsson náði bestum árangri Íslendinganna og endaði í 2.-.3. sæti og var jafn Jee Hyn Ahn frá Suður-Kóreu á samtals átta höggum undir pari.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir endaði í sjötta sæti á fimm höggum undir pari og var með næstbestan árangur kvenna. Bjarki Þór Pétursson lék einnig á fimm höggum undir pari og deildi því sætinu með Ólafíu og nokkrum öðrum kylfingum. 

Tómas Eiríksson Hjaltested varð í níunda sæti á fjórum höggum undir pari og Sigurður Bjarki Blumenstein hafnaði í tólfta sæti á tveimur höggum undir pari. Aðrir íslenskir kylfingar léku yfir pari á mótinu. 

„Það var gaman að spreyta sig á móti strákunum. Það var smá skrýtið fyrst að vera að keppa með þeim en það vandist fljótt. Fyrir mig var þetta mót mest til þess að dusta rykið af kylfunum og taka smá keppnisgolf áður en ég fer til Bandaríkjanna að keppa á Symetra-mótaröðinni,“ sagði Ólafía Þórunn í samtali við Klefann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert