Íslandsmeistarinn líklega úr leik

Guðrún Brá Björgvinsdóttir er úr leik í Ástralíu.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er úr leik í Ástralíu. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi, kemst að öllum líkindum ekki í gegnum niðurskurðinn á Ladies Classic Bonville-mótinu sem fram fer í Ástralíu en mótið er hluti af Evrópumótaröðinni, þeirri næststerkustu í heimi. Guðrún Brá lék sinn annan hring á mótinu í nótt og spilaði á samtals 75 höggum, þremur höggum yfir pari, og var samtals á fimm höggum yfir pari eftir tvo keppnisdaga.

Guðrún byrjaði illa í nótt, fékk tvöfaldan skolla á fyrstu braut og skolla á þriðju. Hún náði svo að rétta úr kútnum á fyrri níu holunum og fékk þrjá fugla, á fjórðu, fimmtu og sjöundu braut. Hún fékk hins vegar skolla á þrettándu, fimmtándu, sextándu og átjándu braut, og það reyndist of mikið þegar upp var staðið. Niðurskurðarlínan miðaðist við eitt högg yfir par eins og sakir standa en enn þá eiga nokkrir kylfingar eftir að ljúka leik í dag.

Þetta var fyrsta mót Guðrúnar á Evrópumótaröðinni á tímabilinu en hún tryggði sér keppnisrétt á mótaröðinni í fyrsta sinn í lok janúar. Valdís Þóra Jónsdóttir er einnig að keppa í Ástralíu en hún var að hefja sinn annan hring á mótinu fyrir stuttu. Valdís lék fyrsta hringinn í gær á fimm höggum yfir pari og þarf að spila vel í dag til þess að komast í gegnum niðurskurðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert