Bjarki með tveggja högga forskot

Bjarki Pétursson
Bjarki Pétursson mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarki Pétursson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar er með tveggja högga forskot fyrir lokadaginn á Íslandsmótinu í golfi á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. 

Bjarki er á níu höggum undir pari samtals en hann lék á þremur undir pari í dag eða 69 höggum. Aron Snær Júlísson einnig úr GKG lék á 67 höggum í dag og er tveimur höggum á eftir Bjarka á sjö undir pari samtals. Aron hitnaði svo um munaði á seinni níu holunum í dag. Á þeim kafla fékk hann einn örn, fimm fugla en tvo skolla og eitt par. 

Axel Bóasson þrefaldur Íslandsmeistari úr Keili er samtals á fimm höggum undir pari. Hann virtist ætla að þjarma meira að Bjarki en fékk þrjá skolla á síðustu fjórum holunum í dag. Félagi hans úr Keili, Rúnar Arnórsson, er einnig á fimm undir pari og hefur leikið nokkuð jafnt golf alla dagana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert