23 ára sigurvegari

Framtíðin er vafalítið björt fyrir Collin Morikawa á golfvellinum.
Framtíðin er vafalítið björt fyrir Collin Morikawa á golfvellinum. AFP

Bandaríkjamaðurinn ungi, Collin Morikawa, skaut mörgum af stærstu stjörnum golfíþróttarinnar ref fyrir rass á lokadegi PGA-meistaramótsins í gærkvöldi þegar hann lék lokahringinn á 64 höggum. 

Morikawa, sem er aðeins 23 ára, tryggði sér þar með sigurinn í mótinu og fyrsta sigurinn á risamóti. Lauk hann leik á samtals 13 höggum undir pari. Hringina fjóra lék hann á 69, 69, 65 og 64. 

Morikawa hefur sýnt hvað í honum býr á árinu og sigraði á Workday Charity Open 12. júlí. Í síðustu viku hafnaði hann í 20. sæti á World Golf Championships. Í júní hafnaði hann í 2. sæti á Charles Schwab Challenge og varð í 9. sæti í mars á Arnold Palmer Invitational. Hann var í 12. sæti heimslistans fyrir mótið. 

Dustin Johnson var efstur fyrir lokahringinn en eins og nokkrum sinnum áður lét hann sigur á risamóti sér úr greipum ganga. Johson lauk leik á 11 undir pari eins og Englendingurinn Paul Casey sem var á höttunum eftir sínum fyrsta sigri á risamóti. Casey gerði fá mistök á hringjunum fjórum en vonir hans urðu að engu þegar Morikawa fékk örn á 16. holunni í gærkvöldi sem er par 4-hola. 

Bryson DeChambeau, Jason Day, Metthew Wolff og Tony Finau voru allir á 10 undir pari. Viss áfangi hjá DeChameau því þetta er í fyrsta skipti sem hann hafnar á meðal tíu efstu í risamóti. Justin Rose og Scottie Scheffler luku leik á níu undir pari samtals.

Sigurvegari síðustu tveggja ára, Brooks Koepka, olli vonbrigðum því hann lék lokahringinn á fjórum yfir pari og lauk leik á þremur undir pari.

Dustin Johnson náði ekki að klára dæmið þrátt fyrir að …
Dustin Johnson náði ekki að klára dæmið þrátt fyrir að fara inn í lokadaginn með forskot. Ekki í fyrsta skipti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert