Fyrsti sigur DeChambeau á risamóti

Bryson DeChambeau með stöðuna í baksýn.
Bryson DeChambeau með stöðuna í baksýn. AFP

Bandaríkjamaðurinn Bryson DeChambeau sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem lauk í New York í kvöld. 

DeChambeau lék samtals á sex höggum undir pari en lokahringinn lék hann á 67 höggum sem er þrjú högg undir pari Winged Foot-vallarins. Hann var sá eini sem lék undir pari á lokahringnum og sá eini sem var undir pari í mótinu samtals. 

Matthew Wolff varð annar á pari samtals. Hann lék á fimm yfir pari á lokahringnum en hafði tveggja högga forskot fyrir lokadaginn. Wolff er aðeins 21 árs og taugastríðið á lokadeginum reyndist honum erfitt. 

DeChambeau er 27 ára gamall og er þetta hans fyrsti sigur á risamóti en sjötti sigurinn á atvinnumannsferlinum. 

Bryson DeChambeau fagnar sigrinum í kvöld.
Bryson DeChambeau fagnar sigrinum í kvöld. AFP

Hann hefur verið mjög á milli tannanna á golfunnendum á þessu ári en hann þyngdi sig mjög á milli keppnistímabila. Jók hann högglengd sína til muna og leggur mikið upp úr því. Nálgun DeChambeau var sú að slá sem lengst í mótinu og eiga eins stutt eftir að flöt og hægt væri. Það er hægara sagt en gert þar sem karginn á Winged Foot var miklu erfiðari í mótinu en gengur og gerist í mótum á mótaröðinni. 

En DeChambeau missti sig aldrei illa og fékk aldrei slæmar sprengjur. Hann fékk þó ellefu skolla í mótinu og til að mynda fimm skolla á öðrum hringnum. En hann hélt haus alla fjóra dagana og varð ekki sigurstranglegur fyrr en leið á þriðja keppnisdag. Þess ber að geta að DeChambeau púttar afar vel en annars hefði leikskipulag hans ekki gengið upp. 

Margir af bestu kylfingum heims áttu góða hringi í mótinu og sýndu meiri tilþrif en DeChambeau. En þeir áttu það sameiginlegt að eiga einnig mjög slæma hringi í mótinu á meðan DeChambeau notaði aldrei meira en 70 högg. Justin Thomas lék til að mynda fyrsta hringinn á 65 höggum en þriðja hringinn á 76. Patrick Reed var efstur eftir 36 holur og hafði þá leikið á 66 og 70 en lék á 77 höggum á þriðja hringnum. Thomas lauk leik á sex yfir pari og Reed á sjö yfir pari. 

Nýbakaður faðir Rory McIlroy var einnig sveiflukenndur. Hann lék fyrsta hringinn á 67 og þann þriðja á 68 en annan hringinn á 76 og lokahringinn á 75 höggum. 

Þriðja sætinu náði Louis Oosthuisen frá Suður-Afríku en hann lék samtals á tveimur yfir pari. 

Efsti kylfingur heimslistans Dustin Johnson var aldrei í baráttunni að ráði eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 73 höggum. Hann lauk leik á fimm yfir pari og fór aldrei undir 70 höggin. 

Úrslit: 

Bryson DeChambeau -6

Matthew Wolff Par

Louis Oosthuizen +2

Harris English +3

Xander Schauffele +4

Dustin Johnson +5

Will Zalatoris +5

Tony Finau + 6

Justin Thomas +6

Webb Simpson +6

Zach Johnson +6

Rory McIlroy +6

kylfingurinn skemmtilegi Louis Oosthuizen hefur oft verið á meðal tíu …
kylfingurinn skemmtilegi Louis Oosthuizen hefur oft verið á meðal tíu efstu á risamótunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert