Spilar Johnson betur þegar áhorfendur sitja heima?

Dustin Johnson þykir vel byggður fyrir golfíþróttina.
Dustin Johnson þykir vel byggður fyrir golfíþróttina. AFP

Eftir sigurinn á Masters fyrir viku síðan eru flestir í golfheiminum þeirrar skoðunar að í lok árs 2020 sé Dustin Johnson besti kylfingur heims. Hvað svo sem kann að gerast á næsta ári. 

Dustin Johnson lék manna besta síðustu mánuðina og sýndi mikinn stöðugleika. Hann sigraði í Fedex úrslitakeppninni. Vann þar tvö mót og hafnaði í öðru sæti á því þriðja eftir bráðabana. Í ljósi samkeppninnar er það mögnuð frammistaða.

Í aðdraganda Masters smitaðist hann af kórónaveirunni og fór í tilheyrandi einangrun. Af þeim sökum var svolítið erfitt að átta sig á því hvort hann gæti verið í sínu besta formi á Masters. Veiruskrattinn dró hins vegar ekki úr honum og Johnson sigraði á samtals 20 undir pari. Tímamót hjá honum því þetta var hans fyrsti sigur á Masters og annar sigurinn á risamóti. 

Ekki er því um það deilt að Johnson sé bestur um þessar mundir. Fyrir nokkrum mánuðum síðan hefði slík fullyrðing ekki gengið upp. Margir voru mjög uppteknir af Bryson DeChambeau eftir að hann landaði mjög öruggum sigri á Opna bandaríska meistaramótinu.

Auk þess lenti Johnson í vandræðum í sumar eins og reyndar Rickie Fowler, Justin Rose og fleiri snjallir kylfingar. Hléið sem gert var á keppnisgolfi frá mars og fram í júní virtist skemma taktinn hjá mörgum. Johnson fór til að mynda tvisvar upp í 80 högg á The Memorial mótinu sem Jack Nicklaus heldur í júlí. En hann var ekki lengi að finna þær lausnir sem þurfti og spilaði frábærlega í ágúst. 

Braut ísinn 32 ára

Dustin Johnson er 36 ára gamall Bandaríkjamaður frá Suður Karólínuríki sem er ekki langt frá Augusta National vellinum þar sem Masters er haldið. Johnson hefur átt mikilli velgengni að fagna á PGA-mótaröðinni. Hann hefur unnið 24 mót á PGA-mótaröðinni og 8 mót á Evrópumótaröðinni. Þegar kylfingar ná að vinna 20 mót fá þær keppnisrétt á PGA-mótaröðinni eins lengi og þeir kæra sig um. 

Tiger Woods klæddi í græna jakkann á Augusta samkvæmt hefðinni …
Tiger Woods klæddi í græna jakkann á Augusta samkvæmt hefðinni en Tiger sigraði á mótinu í fyrra. AFP

Johnson hefur unnið mörg mót og hefur í gegnum árin setið í efsta sæti heimslistans í margar vikur. Miðað við hæfileikana sem í honum búa og velgengni í hefðbundnum mótum á mótaröðunum þá eru margir þeirrar skoðunar að hann ætti að landa fleiri sigrum á risamótum. Eins og áður segir hafði hann aðeins unnið einu sinni þar til kom að Masters á dögunum. Sigraði Johnson á Opna bandaríska árið 2016 og var þá orðinn 32 ára. Keppinautar hans sem eru einnig í fullu fjöri hafa nokkrir unnið oftar. Rory McIlroy og Brooks Koepka hafa unnið fjórum sinnum á risamótum og Jordan Spieth þrisvar. 

En hvers vegna að gera greinarmun á risamótunum og mótunum á PGA-mótaröðinni? Kylfingarnir gera það í raun sjálfir. Rétt eins og í tennis eru heimsklassa kylfingar metnir eftir því hvort og hversu oft þeim tekst að sigra á risamótunum. Spennustigið er miklu hærra á slíkum mótum, og keppendalistinn sterkari, en á hefðbundnum mótum á mótaröðinni þar sem hinir og þessir gætu verið að taka sér frí. 

Norman fékk verri útreið

Johnson hefur blómstrað nú þegar áhorfendur eru ekki leyfðir. Hann fór auðveldlega í gegnum Masters og ekkert virtist hagga honum. Það er í raun ný staða á risamótum því Johnson hefur nokkrum sinnum misst niður góða stöðu á risamótunum í gegnum árin. Hann hefur átt möguleika á sigri á Masters, Opna bandaríska og Opna breska meistaramótinu í gegnum árin. Hefur oftar en einu sinni verið með forystuna á lokadegi. Þrípúttaði til dæmis á síðustu flötinni og hafnaði einu höggi á eftir þegar Jordan Spieth sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2015. Var með forystu fyrir lokadaginn á sama móti á Pebble Beach árið 2010 en lék lokahringinn á 82 höggum. Johnson hefur hafnað í 2. sæti á öllum risamótunum á einhverjum tímapunkti og síðustu tvö skipti hefur hann raunar hafnað í 2. sæti á PGA-meistaramótinu.

Margt bendir til þess að Johnson hafi ekki haft taugar í að landa sigri á risamótunum framan af ferlinum en það geta aldrei orðið annað en getgátur. Auðvitað er langt í frá sjálfsagt að sigra á risamóti. Colin Montgomerie, Lee Westwood, Rickie Fowler, Luke Donald, Hideki Matsuyama, Paul Casey og fleiri geta vitnað um það. En þá komum við aftur af hæfileikum Johnsons og velgengni hans á mótum á mótaröðunum. Hann ætti í raun að hafa unnið fleiri risamót á þessum tímapunkti. 

Jose Maria Olazabal og Greg Norman fallast í faðma þegar …
Jose Maria Olazabal og Greg Norman fallast í faðma þegar Olazabal sigraði á Masters árið 1999. Þar fór síðasta tækifæri Normans til að vinna Masters en ýmislegt er líkt þegar ferill hans er borin saman við feril Dustins Johnsons. Reuters

Fyrir tuttugu til þrjátíu árum var mjög til umræðu hversu illa Greg Norman gekk að vinna risamót. Hann sigraði tvívegis á slíkum mótum en var oft nærri því eins og Johnson. Norman var lengi í efsta sæti heimlistans. Johnson hefur ekki mátt þola jafn mikla gagnrýni vegna þessa eins og Norman. Er það ágætt þar sem gagnrýnin á Norman var oft ansi harkaleg í fjölmiðlum. 

Í mörgum íþróttagreinum veltir fólk fyrir sér hver áhrif áhorfenda séu í hinum ýmsu íþróttagreinum. Nú þegar áhorfendur eru ekki leyfðir, eru úrslitin á annan veg? Er eitthvað áberandi frábrugðið? Þar sem Johnson hefur oft átt erfitt með að tryggja sér sigur þegar spennan er mest þá má velta því fyrir sér hvort hann kunni betur við sig þegar áhorfendur eru ekki. En aðrar ástæður geta einnig legið að baki. Menn geta þroskast og lært af mistökum sínum á ferlinum. Kannski hefur aldurinn eitthvað um það að segja hversu auðvelt hann átti með að verja forskot sitt á Masters. 

Laus við kókaínið

Dustin Johnson er ekki auðveldasta persóna í íþróttaheiminum til að rýna í. Hann gefur ekki mikið af sér í viðtölum. Er stuttur í spunann á blaðamannafundum. Hann er ekki endilega hrokafullur. Honum virðist bara ekki liggja mikið á hjarta. 

Ferill Johnsons er litaður af fíkniefnaneyslu en þrívegis hefur hann fallið á lyfjaprófi hjá PGA-mótaröðinni. Gerðist það á nokkurra ára tímabili. Fyrst mældist i honum maríjúana árið 2009 eða tveimur árum eftir að hann gerðist atvinnumaður. Árið 2012 mældist í honum kókaín. Nú er nokkuð merkilegt að PGA-mótaröðin tilkynnti hvort atvikið opinberlega. Johnson var settur í bann í síðara skiptið en aldrei var tilkynnt um það. Fjölmiðlar og aðdáendur kappans töldu einfaldlega að hann væri í fríi frá keppni eins og gengur og gerist. Kylfingarnir keppa ekki helgi eftir helgi allt árið. Slíkt myndi koma hressilega niður á frammistöðu og því taka þessir bestu sér frí frá keppni reglulega og velja gaumgæfilega þó mót sem þeir hafa áhuga á. 

Þegar kókaín mældist aftur í Johnson árið 2014 gerði PGA-mótaröðin honum ekki lengur greiða með þögninni heldur tilkynnti að hann hefði fengið sex mánaða keppnisbann eftir að hafa fallið á lyfjaprófi. 

Síðan þá hefur ekki neitt komið fram sem bendir til þess að Johnson sé í neyslu og virðist því hafa losað sig við fíkniefnin. Spilamennskan síðustu mánuði bendir einnig eindregið til þess. 

Dustin Johnson og unnustan Paulina Gretzky fagna sigrinum á Masters. …
Dustin Johnson og unnustan Paulina Gretzky fagna sigrinum á Masters. Faðir hennar er enn frægari íþróttamaður en tengdasonurinn. Sjálfur Wayne Gretzky, frægasti íshokkíleikmaður sögunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert