Snortinn að sjá allar rauðu treyjurnar

Rory McIlroy í rauðu og svörtu á mótinu á Flórída …
Rory McIlroy í rauðu og svörtu á mótinu á Flórída í gær. AFP

Kylfingurinn Tiger Woods kveðst snortinn af því hve margir félaga hans í golfíþróttinni sýndu honum stuðning á mótum helgarinnar.

Tiger er á sjúkrahúsi í Los Angeles að jafna sig eftir bílslysið í síðustu viku þegar hann fótbrotnaði illa og á fyrir höndum langa endurhæfingu.

Margir kylfingar sýndu Tiger táknrænan stuðning með því að klæðast rauðri treyju og svörtum buxum, einkennislitum Tigers, á mótum helgarinnar.

Þar á meðal voru Rory McIlroy, Phil Mickelson, Annika Sörenstam, Tommy Fleetwood, Patrick Reed og Tony Finau.

„Það er erfitt að útskýra hversu snortinn ég var í dag þegar ég kveikti á sjóvarpinu og sá allar þessar rauðu treyjur. Til allra kylfinga og stuðningsfólks: Þið eruð svo sannarlega að hjálpa mér að komast í gegnum þessa erfiðleika,“ skrifaði Tiger á Twitter.

„Við viljum bara sýna honum að við hugsum til hans og styðjum hann í baráttunni. Hann virðist vera í heldur betra standi núna en á langt bataferli fyrir höndum. Ef enginn Tiger Woods hefði komið fram þá tel ég að mótaröðin og golfíþróttin í heild sinni væru ekki í eins góðum málum. Hann hefur skipt okkur miklu máli og gerir það áfram,“ sagði McIlroy eftir keppni á WGC-Workday-golfmótinu sem lauk á Flórída í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert